Flokkarnir og dýravelferðarmálin
Nú þegar stutt er í alþingiskosningar er vert að fara yfir hvernig stjórmálaflokkarnir standa sig í dýravelferðarmálum. Þessi leiðarvísir er hugsaður til að aðstoða vegan kjósendur í ákvarðanatöku varðandi næstu kosningar. Dýravelferð er auðvitað bara eitt af mörgum mikilvægum málefnum komandi kosninga en fyrir vegan samfélagið og dýravini getur málaflokkurinn haft afgerandi áhrif á valið. Ekki er um tæmandi lista að ræða heldur tekur umsjónarmaður saman texta úr stefnuskrám flokkana sem eru misaðgengilegar á netinu og tengir einnig í helstu dýrafréttir síðustu ára og atburðarásina í kring um þær.
Samtök um dýravelferð á Íslandi sendu öllum flokkum greinargóðan spurningalista um viðhorf stjórnmálaflokkanna til ákveðinna mála er varða velferð dýra á Íslandi. Svörin við spurningalistanum hafa ekki enn verið birt en koma vonandi inn á vefinn fyrir kosningar. Spurningalistann má finna hér.
Aðeins um dýravelferð: Orðið dýravelferð í vegan samhengi er erfitt viðureignar. Þau okkar sem eru vegan fyrir dýrin viljum augljóslega ekki bara betri aðstöðu fyrir dýr í ánauð heldur er lokamarkmið okkar að öll dýraafurðavinnsla verði endanlega lögð niður og að í staðinn verði tekið upp 100% plöntumiðað framleiðslu- og fæðukerfi. Fyrir frekari upplýsingar er hægt að lesa: Abolitionism And Welfarism: Two Animal Advocacy Perspectives.
Alþingiskosningar fara fram laugardaginn 30. nóvember 2024. Leiðarvísir þessi var unninn 11–12. nóvember 2024.
Ekki mátti finna neitt um dýravelferð í stefnu Ábyrgrar framtíðar fyrir þessar kosningar.
Ekki mátti finna neitt um dýravelferð í stefnu Flokk fólksins fyrir þessar kosningar. Eina markverða er kemur að dýrum í stefnu Flokk fólksins er ef til vill að flokkurinn vill efla strandveiðar.
Inga Sæland, formaður flokksins hefur þó lagt fram bann við blóðmerahaldi þrjú síðustu starfsár þingsins.
Á opnum fundi Dýraverndarsambands Íslands með fulltrúum stjórnmálaflokkanna fimmtudaginn 7. nóvember 2024 studdi Flokkur fólksins hvalveiðibann og að hvalveiðilögin frá 1949 verði numin úr gildi.
Á sama fundi studdu Flokkur fólksins bann við blóðmerahaldi og einnig bann við loðdýraeldi.
Framsetning stefnumála hjá Framsóknarflokknum eru eilítið erfiðari viðureignar en hjá öðrum flokkum en þar þurfti að leita í samþykktum flokksþingsályktunum í formi PDF skjala.
Úr Atvinnumálastefnu um fiskeldi:
Framsókn vill ná sátt um uppbyggingu og starfsemi fiskeldis á Íslandi. Slík sátt næst aðeins með skýrri lagaumgjörð, vísindalegum rannsóknum, sjálfbærri nýtingu auðlinda og virku eftirliti.
Úr atvinnumálastefnu um hvalveiðar:
Framsókn styður sjálfbærar veiðar á hvölum á meðan þær eru heimilar samkvæmt lögum.
Úr atvinnumálastefnu um landbúnað:
Mikil sóknarfæri felast í frekari framleiðslu á lamba-, svína,- hrossa- og nautakjöti, kjúklingi, korni, grænmeti og annarri akuryrkju.
og
Framsókn vill tryggja nægilegt magn raforku og sanngjarnt raforkuverð til garðyrkjubænda. Það eflir frumframleiðslu, eykur framleiðni, stuðlar að frekari fjárfestingu, nýsköpun og framþróun greinarinnar. Öll tækifæri eru til að stórauka framleiðslu á innlendu grænmeti og kryddjurtum. Skapa þarf hvata til að rækta fleiri tegundir af grænmeti, ávöxtum, plöntum og blómum sem hægt er að rækta hér á landi.
og
Framsókn vill styðja sérstaklega við rannsóknir og nýsköpun í matvælaframleiðslu á borð við örþörungarækt, einfrumupróteinrækt, skordýrarækt og/eða aðra nýja próteingjafaframleiðslu, sem er liður í auknu fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar til framtíðar.
og
Bændum ætti að heimila heimaslátrun og vinnslu að undangengnu áhættumati og nauðsynlegri fræðslu.
Úr Atvinnumálastefnu um velferð dýra og varnir gegn riðu:
Framsókn leggur áherslu á að velferð dýra séu höfð að leiðarljósi við matvælaframleiðslu. Mikilvægt er að eftirlit með dýravelferð sé skilvirkt.
Flestir af þeim þingmönnum sem vildu ekki gefa upp afstöðu sína eða svöruðu ekki fyrirspurn Heimildarinnar 27. maí 2023 um afstöðu stjórnmálaflokkanna til Hvalveiða voru úr röðum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.
Á opnum fundi Dýraverndarsambands Íslands með fulltrúum stjórnmálaflokkanna fimmtudaginn 7. nóvember 2024 studdi Framsóknarflokkurinn ekki hvalveiðibann.
Á sama fundi studdi Framsóknarflokkurinn ekki bann við blóðmerahaldi og banni á loðdýraeldi.
Ekki mátti finna neitt um dýravelferð í stefnu Lýðræðisflokksins fyrir þessar kosningar.
Ekki mátti finna neitt um dýravelferð í stefnu Miðflokksins fyrir þessar kosningar.
Á opnum fundi Dýraverndarsambands Íslands með fulltrúum stjórnmálaflokkanna fimmtudaginn 7. nóvember 2024 studdi Miðflokkurin ekki hvalveiðibann.
Á sama fundi studdi Miðflokkurinn ekki bann við blómerahaldi né bann við loðdýraeldi.
Ekki fannst sérstakur kafli um dýravelferð í stefnuskrá Pírata á vefsíðunni piratar.is en samt sem áður samþykktu Píratar stefnu um dýrahald og velferð dýra árið 2019.
Úr umhverfis- og loftslagsstefnu Pírata:
Græn umskipti í matvælaframleiðslu kalla á breyttar neysluvenjur. Setjum sérstök markmið um að draga úr neyslu á dýraafurðum, sem eru þau matvæli sem hafa stærsta vistsporið. Styðjum þau markmið með afgerandi grænum skrefum í öllum opinberum mötuneytum.
og
Endurskoðum landbúnaðarstefnu með markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda að teknu tilliti til losunar frá dýrahaldi, jarðrækt, innflutningi hráefnis og tækja og samanburði við innflutta erlenda framleiðslu. Leggjum af niðurgreiðslur til innlendrar matvælaframleiðslu með hátt kolefnisspor.
og
Stóraukum ylrækt og jarðrækt á plöntufæði - grænmeti, korni og baunum - með hvatastyrkjum, lægra raforkuverði til grænnar framleiðslu og innleiðingu þriggja fasa raforku um allt land.
og
Endurskoða skal lög um villt dýr og fugla á Íslandi til að tryggja vernd þeirra. Spendýr í sjó njóti sömu verndar og spendýr á landi, þ.m.t. selir og hvalir. Banna skal veiði á villtum dýrum sem eru á válista, þ.m.t. veiði á heimskautaref, lunda, sel og hval, í samræmi við varúðarregluna.
Úr sjávarútvegsstefnu Pírata:
Hvalveiðum skal hætt við strendur Íslands. Hvalir hafa margvísleg jákvæð áhrif á náttúruna. Neðansjárvistkerfið reiðir sig á tilveru þeirra og er jörðinni lífsnauðsynlegt. Hvalastofninn þjónar einnig mikilvægu hlutverki í baráttunni við hlýnun jarðar. Hvalveiðar eru gagnrýndar um allan heim og skaðar ímynd landsins með tilheyrandi neiðkvæðum efnahagslegum áhrifum. Píratar munu banna hvalveiðar.
og
Bann á opið sjókvíaeldi. Til að vernda íslenskan laxastofn og koma í veg fyrir frekari mengun og eyðileggingu sjávarríkisins þarf að banna opið sjókvíaeldi. Fiskeldi í opnum sjókvíum hefur gríðarlega mengandi áhrif og slæmar afleiðingar fyrir náttúruna, lífiríki sjávar og vistkerfið í heild.
Á opnum fundi Dýraverndarsambands Íslands með fulltrúum stjórnmálaflokkanna fimmtudaginn 7. nóvember 2024 studdu Píratar hvalveiðibann og að hvalveiðilögin frá 1949 verði numin úr gildi.
Á sama fundi studdu Píratar bann við blóðmerahaldi og einnig bann við loðdýraeldi.
Samfylkingin er eini flokkurinn með sérstakan kafla í stefnuskrá um dýravelferð á vefsíðunni sinni.
Úr stefnuskrá Samfylkingarinnar um dýravelferð:
Samfylkingin vill að mótuð verði markvissari stefna um dýravelferð á Íslandi og skerpt á eftirliti með aðbúnaði og meðferð dýra.Við viljum gæta að réttindum dýra og veita umráðamönnum þeirra ráðgjöf og fræðslu um dýravelferð og þær lögbundnu skyldur sem fylgja dýrahaldi. Vernda þarf heimkynni villtra dýra þannig að líffræðilegum fjölbreytileika sé ekki ógnað og meta áhrif loftslagsbreytinga á vistkerfi íslenskrar náttúru.
Úr stefnuskrá Samfylkingarinnar um landbúnað:
Þróun heimsmála síðustu ár sýnir með óyggjandi hætti hversu mikilvæg innlend matvælaframleiðsla er þjóðarbúinu. Með mikilli grænni orku getum við framleitt mun meira en nú er gert og mikilvægt að nýta hana til fjölbreyttari matvælaframleiðslu, sem stuðli jafnt að heilbrigði neytenda og leiki hlutverk í baráttunni gegn loftlagsvánni.
…stuðla jafnframt að nýsköpun og fjölbreytni, aukinni 393 grænmetisrækt og umhverfisvænni matvælaframleiðslu.
Úr stefnuskrá Samfylkingarinnar um fiskeldi:
Tryggja verður að þjóðin njóti arðs af auðlindum sínum og á það við um fiskeldi einsog aðrar atvinnugreinar sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Samfylkingin styður ströngustu umhverfiskröfur í fiskeldi, að vísindalegri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar verði fylgt til hins ýtrasta. Tryggja verður betur lýðræðislega aðkomu íbúa að ákvörðunum um uppbyggingu fiskeldis í umhverfi þess og að tekjur skili sér til nærsamfélagsins.
Úr stefnuskrá Samfylkingarinnar um græna fjárfestingu:
Á meðal verkefna sem grænn fjárfestinga- og nýsköpunarsjóður ætti að horfa til er lífræn eldsneytisframleiðsla, svo sem á grænu vetni til útflutnings, tæknilausnir til kolefnisföngunar- og förgunar, nýsköpun í matvælaframleiðslu og fjárfestingar vegna orkuskipta í iðnaði svo dæmi séu tekin.
Á opnum fundi Dýraverndarsambands Íslands með fulltrúum stjórnmálaflokkanna fimmtudaginn 7. nóvember 2024 studdi Samfylkingin hvalveiðibann og að hvalveiðilögin frá 1949 verði numin úr gildi.
Á sama fundi studdi Samfylkingin bann við blóðmerahald og einnig bann við loðdýraeldi.
Ekki fannst sérstakur kafli um dýravelferð í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins.
Úr stefnu Sjálfstæðisflokksins um atvinnuvegi:
Strangar kröfur eiga að gilda um dýravelferð, hreinleika og heilbrigði.
Úr stefnu Sjálfstæðisflokksins um umhverfismál:
Fiskeldi, hvort heldur sem er í sjó eða á landi, er mikilvæg viðbót við öflugan sjávarútveg sem stundaður er á Íslandi. Mikil tækifæri felast í fiskeldi og útflutningsverðmæti eru mikil. Stíga þarf varfærin skref og gera ströngustu kröfur í umhverfismálum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi þegar kemur að fiskeldi í sjó og á landi.
11. nóvember 2024 birtist umfjöllun í Heimildinni að Jón Gunnarsson þingmaður hafi samþykkt beiðni Bjarna Benediktssonar um að þiggja sæti á lista gegn því að Jón komist í aðstöðu til veita veiðileyfi til Hvals hf.
Á 140. löggjafarþingi þann 13. október 2011 reynir Jón Gunnarson að nota hugmyndir um tvöfalt siðgæði sem ástæðu þess að halda hvalveiðum áfram á Íslandi.
Á 143. löggjafarþingi þann 3. desember 2013 talar Jón Gunnarson gegn eftirliti með dýravelferð.
Flestir af þeim þingmönnum sem vildu ekki gefa upp afstöðu sína eða svöruðu ekki fyrirspurn Heimildarinnar 27. maí 2023 um afstöðu stjórnmálaflokkanna til Hvalveiða voru úr röðum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.
Á opnum fundi Dýraverndarsambands Íslands með fulltrúum stjórnmálaflokkanna fimmtudaginn 7. nóvember 2024 studdi Sjálfstæðisflokkurinn ekki hvalveiðibann.
Á sama fundi sat Sjálfstæðiflokkurinn hjá þegar kosið var um bann við blómerahaldi. Að auki tók Sjálfstæðisflokkurinn ekki afstöðu við banni á loðdýraeldi.
Ekki fannst sérstakur kafli um dýravelferð í stefnuskrá Sósíalistaflokks Íslands.
Úr stefnu Sósíalistaflokks Íslands um umhverfis- og loftlagsmál:
Að styðja við matvælaframleiðslu í nærumhverfinu með niðurgreiðslu á raforku til gróðurhúsaræktunar og stefnt að staðbundnum lifnaðarháttum samfélagsins.
og
Að standa vörð um lífríki sjávar með verndun tegunda og banni við ofveiði og brottkasti.
Úr stefnu Sósíalistaflokks Íslands um landbúnaðar- og matvælamál:
Að áhersla verði lögð á styttri virðiskeðju, umhverfisvernd, dýravernd, sjálfbærni og lífræna ræktun í öllum landbúnaði.
og
Við endurskoðun landbúnaðarkerfisins skal ávallt hafa dýravernd í hávegum og tryggja að Ísland sé þar í fremstu röð.
og
Að veittur verði afsláttur af raforku til gróðurhúsaræktunar.
Á opnum fundi Dýraverndarsambands Íslands með fulltrúum stjórnmálaflokkanna fimmtudaginn 7. nóvember 2024 studdi Sósíalistaflokkur Íslands hvalveiðibann og að hvalveiðilögin frá 1949 verði numin úr gildi.
Á sama fundi studdi Sósíalistaflokkur Íslands bann við blóðmerahaldi og einnig bann við loðdýraeldi.
Ekki fannst sérstakur kafli um dýravelferð í stefnuskrá Viðreisnar.
Úr stefnumálum Viðreisnar um landbúnað:
Gera þarf eftirlit innan matvælaframleiðslu skilvirkari í því skyni að styðja við aukna dýravelferð, styðja við frelsi matvælaframleiðenda, styðja við frumkvöðlastarf innan matvælaframleiðslu og nýsköpun ásamt því að sinna lögbundnu eftirliti. Tryggja þarf að upptaka evrópskrar matvælalöggjafar gangi ekki lengra hér en innan ESB.
Úr stefnumálum Viðreisnar um fiskeldi:
Eldi laxfiska er umfangsmikið í byggðum landsins og því er mikilvægt að efla undirstöður greinarinnar, m.a. hvað varðar umhverfisáhrif hennar og dýravelferð. Læra þarf af reynslu annarra þjóða og halda áfram að móta skýrt og regluverk skilvirkt eftirlit í kringum starfsemina með sjálfbærni í huga.
Á opnum fundi Dýraverndarsambands Íslands með fulltrúum stjórnmálaflokkanna fimmtudaginn 7. nóvember 2024 studdi Viðreisn hvalveiðibann og að hvalveiðilögin frá 1949 verði numin úr gildi.
Á sama fundi studdi Viðreisn bann við blóðmerahaldi og ennfremur bann á loðdýraeldi.
Ekki fannst sérstakur kafli um dýravelferð í stefnuskrá Vinstri grænna.
Úr stefnu Vinstri græna um fiskeldi:
Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur mikilvægt að umhverfisvernd og sjálfbærni séu höfð að leiðarljósi við uppbyggingu fiskeldis á Íslandi. Miklir vaxtar- og framtíðarmöguleikar felast í frekari þróun á umhverfisvænu fiskeldi og nýsköpun.
Úr stefnu Vinstri grænna um starfsumhverfi landbúnaðarins:
Tryggja þarf að garðyrkjubændur fái raforku á sambærilegu verði og aðrir stórkaupendur til lýsingar gróðurhúsa. Beina þarf þegar framleiddri orku í aukna grænmetisrækt.
Úr stefnu Vinstri grænna um nýja hugsun og ný tækifæri:
Stórauka þarf hlutfall innlendrar framleiðslu á grænmeti, bæði útiræktað grænmeti og ylræktað.
Úr matvælastefnu Vinstri grænna:
Finna þarf fjölbreyttari prótíngjafa sem hægt er að rækta á Íslandi með því að styðja við öflugt rannsóknarstarf í matvælaframleiðslu til að mynda á skordýrum, einfrumungum, nytjaplöntum og þörungum.
og um matvælaöryggi:
Mikilvægt er að tryggja innlendar rannsóknir og þjónustu á sviði dýraheilbrigðis- og dýravelferðar.
Fyrrv. Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, var falið að móta stefnu um dýraheilsu rétt áður en ríkisstjórnin féll með það að markmiði: Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra að vinna að heildarstefnumótun um dýraheilsu sem taki til velferðar dýra, heilbrigði þeirra og heilbrigðisþjónustu við dýr. Í stefnumótunarvinnunni verði tekið mið af hugmyndafræði „One Health“, eða einnar heilsu, þar sem heilsa manna, dýra og umhverfis mynda eina heild. Meginmarkmið stefnumótunarinnar verði að skapa starfsumhverfi sem tryggi yfirsýn yfir heilbrigði og velferð dýra á sama tíma og stuðlað verði að bættu heilbrigði dýra og góðri heilbrigðisþjónustu við þau, ábyrgu dýrahaldi og bættu eftirliti. Ráðherra leggi stefnuna fram í formi tillögu til þingsályktunar á vetrarþingi 2025.
11. júní 2024 — einu ári eftir að Svandís Svavarsdóttir, þáverandi matvælaráðherra, ákvað að stöðva hvalveiðar á forsendum dýraverndunar — leyfði þáverandi matvælaráðherra Bjarkey Olsen aftur hvalveiðar í eitt ár.
Árið 2020 fékk Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður Vinstri grænna tillögu samþykkta um að veita 160 milljónir til stuðnings við minkarækt á Íslandi.
Á opnum fundi Dýraverndarsambands Íslands með fulltrúum stjórnmálaflokkanna fimmtudaginn 7. nóvember 2024 studdu Vinstri græn hvalveiðibann og að hvalveiðilögin frá 1949 verði numin úr gildi.
Á sama fundi studdu Vinstri græn bann við blóðmerahaldi og einnig bann við loðdýraeldi.